Úr fjötrum

Gestur Þorgrímsson

1992

Blágrýti, brons
Hb-940

Eitt fjögurra verka sem finna má í Hafnarfjarðarbæ eftir Gest Þorgrímsson. Verkið er frá 1992 en sama ár héldu Gestur og eiginkona hans Sigrún Guðjónsdóttir, myndlistarmaður, betur þekkt sem Rúna, stóra yfirlitssýningu á verkum sínum í Hafnarborg. Þá festi menningarstofnunin einnig kaup á verkinu, sem sómir sér vel við suðurhlið safnsins. Þar kallast hráar blágrýtissúlurnar og slétt bronsið á áhugaverðan hátt á við umhverfi verksins, þar sem grófar náttúruhellur, dökkir kantsteinar og ljósar gangstéttarhellur mynda hring um verkið. Loks fær skáldlegur titill verksins hugann til að reika og vekur jafnvel upp hugsanir um bergrisa og jötna eða hinn ægilega kraft jarðarinnar undir fótum okkar.

Gestur Þorgrímsson, myndhöggvari, fæddist í Laugarnesi við Reykjavík 27. júní 1920. Gestur stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann 1944-46 og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1946-47. Á sjötta áratugnum var hann landsþekktur skemmtikraftur og gerði einnig allmarga útvarpsþætti á þeim tíma. Þegar Kennaraháskólinn var stofnaður starfaði hann þar nær óslitið til ársins 1984. Gestur starfaði alla tíð að myndlist samhliða öðrum störfum. Eftir að hann hætti kennslu sneri hann sér einvörðungu að listinni og sinnti mest höggmyndagerð. Auk útilistaverka Gests í bænum varðveitir Hafnarborg fimm önnur verk eftir listamanninn.