Útilistaverk í Hafnarfirði

Í Hafnarfirði er að finna fjölmörg útilistaverk sem varða sögu bæjarins, byggðarinnar og hafnarinnar, jafnt brjóstmyndir og minnisvarða, auk óhlutbundinna skúlptúra og verka sem sækja innblástur sinn í náttúruna. Mörg verkanna eru staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar og við höfnina en einnig má finna fjölda þeirra í höggmyndagarðinum á Víðisstaðatúni, í Hellisgerði og við Sólvang. Meðal þeirra listamanna sem eiga verk í almannarými Hafnarfjarðar má nefna Gest Þorgrímsson, Ríkarð Jónsson, Ásmund Sveinsson, Grím Marinó Steindórsson, Einar Má Guðvarðarson, Sverri Ólafsson, Magnús Kjartansson, Pál Guðmundsson á Húsafelli, Hallstein Sigurðsson og Steinunni Þórarinsdóttur, auk ýmissa erlendra listamanna sem tengjast bænum.