Yngsti fiskimaðurinn

Ásmundur Sveinsson

1942

Bronsafsteypa
Hb-937

Verkið var upphaflega afhjúpað á Jónsmessuhátíð árið 1942 en hátíðin var árlegur viðburður í Hellisgerði á árunum 1936-60. Þá voru það hjónin Helga Jónasdóttir og Bjarni Snæbjörnsson sem gáfu bænum styttuna í tilefni af 25 ára starfsafmæli Bjarna sem læknis í Hafnarfirði. Eftir að hjónin höfðu gefið bænum verkið ákváðu svo útgerðarfélög bæjarins, sem og einstaklingar í Hafnarfirði, að leggja sitt af mörkum til þess að láta laga reitinn í kringum styttuna. Steypt var allstórt tjarnarstæði í dæld í horni garðsins við mót Hellisgötu og Reykjavíkurvegar, þar sem höggmyndinni var að lokum komið fyrir í miðri tjörninni og vatn leitt í hana. Við framkvæmdir á tjörninni kringum 1980 vildi hins vegar svo óheppilega til að upprunalega styttan skemmdist. Var verkið loks endurgert í sinni upprunalegu mynd og komið fyrir í tjörninni á ný árið 2008, þar sem það stendur nú, gestum garðsins til mikillar ánægju.

Ásmundur Sveinsson var fæddur 20. maí 1893 á Kolsstöðum í Miðdölum. Ásmundur lærði tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni til að byrja með en 1919 hélt hann til frekara náms til Kaupmannahafnar og þaðan til Svíþjóðar, þar sem hann nam höggmyndalist í sex ár við Listaakademíuna í Stokkhólmi. Eftir útskrift þaðan flutti hann svo til Parísar, þar sem hann dvaldi um þriggja ára skeið, auk þess að ferðast um Grikkland og Ítalíu, áður en hann fluttist aftur heim til Íslands 1929. Ásmundur var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar og hafði mikil áhrif á aðra myndhöggvara með starfi sínu, auk þess sem hann tók marga listamenn í læri á löngum ferli sínum, þar á meðal nokkra þeirra sem eiga útilistaverk í Hafnarfirði.