Líparítsteinn
Hb-1134, Hb-1135
Verk Páls Guðmundssonar er höggmynd í tveimur hlutum, gerð úr tveimur líparítsteinum, sem standa sinn hvoru megin við göngustíg á Víðistaðatúni. Í steinana eru höggin stórskorin tröllsandlit en verkin bera annars lítið yfir sér og geta auðveldlega farið fram hjá þeim sem eiga leið um stíginn. Þannig eru þau nánast falin en samkvæmt Páli leynast einmitt tröll, vættir, huldufólk, dýr og menn í steinum sem hann laðar svo fram í dagsljósið. Þá vinnur hann verk sín ýmist með bergþrykki eða svellþrykki, auk þess sem hann klýfur steina í sundur til að finna leyndar myndir inni í þeim. Slík verk kallar hann samlokur, sem geta verið af öllum stærðum. Við vinnu sína notar Páll eingöngu handverkfæri og náttúrulega liti, oftast liti úr steinunum sjálfum, sem hann leyfir að njóta sín, líkt og vel má sjá í þessum ævintýralegu verkum.
Páll Guðmundsson fæddist 27. mars 1959 á Húsafelli, þar sem hann ólst upp í faðmi fjallhringsins sem mótaði hann frá barnæsku. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1977-81 og lagði síðar stund á nám í höggmyndalist við Listaháskólann í Köln í Vestur-Þýskalandi 1985-86. Að námi loknu fluttist Páll svo aftur í Húsafell, þar sem hann hefur búið síðan. Verk hans samanstanda af olíumálverkum og vatnslitamyndum, auk höggmynda, svellþrykks, bergþrykks og helluþrykks. Á ferli sínum hefur hann haldið fimmtán einkasýningar og höggmyndir eftir hann má finna víða um land og jafnvel utan landsteinanna. Þá hefur Páll einnig vakið athygli sína fyrir hljóðfærasmíð sína, steinhörpuna og rabarbaraflautuna, sem hann spilaði til að mynda á er hann kom fram á tónleikunum Ör-lög og samlokur á Sönghátíð í Hafnarborg árið 2019.