Þórður Edilonsson læknir

Ríkarður Jónsson

1958

Brons, steypa
Hb-944

Þórður Edilonsson (1875-1941) var fæddur á Akureyri en fluttist til Hafnarfjarðar um áramótin 1903-04 til þess að gerast aðstoðarlæknir Guðmundar Björnssonar, síðar landlæknis. Þórður lauk kandídatsprófi í læknisfræði árið 1899 og fór því næst utan í framhaldsnám. Að námi loknu sinnti hann læknisstörfum í Kjós og var með aðsetur að Meðalfellskoti. Verkið var reist til minningar og í tilefni þess að fimmtíu ár voru liðin frá því að Þórður var skipaður héraðslæknir í Hafnarfirði 24. júní 1908, sama ár og Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi. Þá voru Þórður og Bjarni Snæbjörnsson (1889-1970) fyrstu starfandi læknar St. Jósefsspítala. Kona Þórðar var Helga Benediktsdóttir Gröndal (1875-1937), dóttir skáldsins þjóðkunna.

Ríkarður Jónsson fæddist í Tungu í Fáskrúðsfirði 20. september 1888. Nam hann tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni, tréskurðameistara, í Reykjavík og sótti jafnframt teiknikennslu hjá Þórarni B. Þorlákssyni, listmálara, um skeið. Þá varð Ríkarður fyrstur til þess að ljúka námi í myndskurðarlist hér á landi. Sveinsstykki hans var spegilumgjörð úr mahóní og bar útskurðurinn keim af nýbarokkstíl 19. aldar. Spegillinn er meðal þekktustu verka Ríkarðs Jónssonar og er nú eign Þjóðminjasafns Íslands. Árin 1911-14 stundaði Ríkarður síðan nám við höggmyndadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn. Ríkarður Jónsson var einna þekktastur fyrir brjóstmyndir sínar og lágmyndir af samtíðarmönnum, sem og útskurðarmuni ýmiss konar, en tvo aðra minnisvarða má finna í Hellisgerði eftir listamanninn.