Sólstafur

Grímur Marinó Steindórsson

1997

Ryðfrítt stál

Í skjóli nokkurra trjáa stendur verk Gríms Marinós Steindórssonar eilítið falið á bak við runna við Sólvang, dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði. Lýrískur titill verksins kallast á við minjagrip sem Grímur vann í tilefni af sögulegum leiðtogafundi Gorbatsjovs og Reagans í Höfða í Reykjavík árið 1986. Þá var áletrunin á gripnum svohljóðandi: „Sólin rís upp frá bjargbrún og sólstafir falla á upphafsdag. Friðardúfur flögra létt til himna á vit hins ókomna.“ Endurspeglast þessi ljóðræna jafnframt í verkinu, sem er stílhreint og formfagurt, enda þótt efni þess sé kalt stálið. Dregur listamaðurinn þannig með natni sinni fram hið fínlega í efninu, svo sjá má bæði jafnvægi og stíganda á hinum lóðrétta ás verksins, frá stöpli þess til hinnar rúnuðu málmkúlu, sjálfrar kringlu sólarinnar, sem trónir á toppi þess. Verkið var á meðal vegg- og höggmynda listamannsins á sýningu hans, Vorkomu, í Gerðarsafni árið 1995.

Grímur Marinó Steindórsson var fæddur í Vestmannaeyjum 25. maí 1933. Grímur var menntaður sem járniðnaðarmaður og vann sem slíkur um árabil. Hann lagði einnig stund á málaralist og höggmyndagerð við Myndlistaskólann í Reykjavík. Grímur hélt fjölda einkasýninga og tók einnig þátt í samsýningum, auk þess sem hann tók þátt í samkeppnum um gerð listaverka og hlaut hann til að mynda fyrstu verðlaun í samkeppni ferðamálanefndar Reykjavíkur um minjagrip í tilefni af leiðtogafundinum í Reykjavík 1986. Grímur bjó í Kópavogi um árabil og var meðal annars útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs árið 1994. Þá hefur hann unnið jöfnum höndum í járn og stein og á verk víðs vegar um landið.