Sigling

Þorkell G. Guðmundsson

1962

Steinsteypa
Hb-1362

Í tilefni af fimmtíu ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar 1. júní 1958 var efndi bæjarstjórn Hafnarfjarðar til samkeppni um listaverk til heiðurs hafnfirskri sjómannastétt fyrir hinn mikla og sérstæða þátt hennar í uppbyggingu kaupstaðarins. Kallað var eftir tillögum í mars 1959 en þar sem dómnefndin var ekki ánægð með þátttöku var ákveðið að gefa lengri frest. Að endingu var það þó Þorkell G. Guðmundsson sem hreppti hnossið en í verki hans má sjá hvernig stílhrein formin mynda segl og öldur, líkt og hugmynd um hið óræða fley sem flýtur um höfin. Þá mætast í verkinu mjúkar og stífar línur, sem mynda ákveðna spennu, þó það sé á sama tíma flæði og léttleiki yfir því, auk þess sem skær litur þess ljáir því birtu hvernig sem viðrar. Mætti jafnvel spyrja hvort hér birtist okkur sjálf „þjóðarskútan“, ekki síst í ljósi þess þáttar sem sjómenn hafa átt í afkomu og uppbyggingu landsins alls, rétt eins og Hafnarfjarðar.

Þorkell G. Guðmundsson er fæddur 20. júní 1934. Hann starfaði lengst af sem húsgagnahönnuður en hann lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1954 og hélt síðar til Danmerkur, þar sem hann nam húsgagnahönnun við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn. Þorkell kom heim árið 1960 og hóf störf á teiknistofu Einars Sveinssonar, arkitekts og húsameistara Reykjavíkur. Þorkell stofnaði svo sína eigin teikni- og hönnunarstofu árið 1967 og hóf samstarf við ýmsa húsgagnaframleiðendur, en þeir voru ekki vanir að leita til hönnuða við framleiðslu á þessum tíma. Þorkell var þó ekki einhamur og eftir að hann kom heim frá Danmörku hóf hann nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, þar sem hann naut leiðsagnar Ásmundar Sveinssonar, myndhöggvara, árin 1960-63.