Stál, steinsteypa
Eitt tveggja verka sem finna má í Hafnarfjarðarbæ eftir Sverri Ólafsson. Verkið var unnið fyrir Listahátíð Hafnarfjarðar árið 1993 en Sverrir var einn helsti hvatamaður þess að Listahátíð í Hafnarfirði var sett á laggirnar árið 1991, í tengslum við Alþjóðlega vinnustofu myndhöggvara, sem Sverrir hafði tekið þátt í frá upphafi, bæði í Svíþjóð og Mexíkó. Sverrir hafði annars mikil tengsl við Mexíkó og varð fyrir talsverðum áhrifum frá suðuramerískri list á ferðalögum sínum um landið. Heillaðist hann sérstaklega af hinum gríðarlega fjölda af píramídum sem Mexíkóar eiga frá tímum Asteka og má einmitt sjá þau áhrif í verkinu. Þá vísar titill verksins í skáldsögu kólumbíska Nóbelsrithöfundarins Gabriel García Márques, Hundrað ára einsemd, en bókin er oft sögð marka upphaf töfraraunsæis í bókmenntum.
Sverrir Ólafsson fæddist á Bíldudal 13. maí 1948 en ólst upp í Stykkishólmi. Hann tók kennarapróf frá handavinnudeild Kennaraskóla Íslands árið 1969 og lauk námi frá myndhöggvaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1976. Hann stundaði einnig nám í málmtækni, m.a. við Iðntæknistofnun Íslands og sótti námskeið í glerlist í Cambridge á Englandi. Sverrir kenndi mynd- og handmennt við Víðistaðaskóla og Lækjarskóla í Hafnarfirði á árunum 1969-73 og kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-85. Sverrir var áhrifamaður og brautryðjandi á sínu sviði og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, m.a. í Mexíkó þar sem hann starfaði lengi að list sinni.