Hjól I

Hallsteinn Sigurðsson

2004

Ál
Hb-1404

Í tilefni af hundrað ára afmæli rafveitu á Íslandi var ákveðið að efna til sérstakrar listaverkasamkeppni, til minningar um fyrstu vatnsaflsvirkjun landsins, en það var listamaðurinn Hallsteinn Sigurðsson sem bar sigur úr býtum í keppninni. Verk hans stendur skammt frá Hamarskotslæknum en það var Jóhannes Reykdal (1874-1946) sem kom fyrstu rafstöð landsins á laggirnar við Lækinn í nánd við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Þá varð Hafnarfjörður fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi 12. desember 1904 þegar virkjunin var tekin í notkun og ljós tendruð í sextán húsum í bænum, auk fjögurra götuljósa. Verkið var afhjúpað af þeim Þórði og Elísabetu Reykdal, börnum Jóhannesar.

Hallsteinn Sigurðsson er fæddur 1. apríl 1945. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1963 til 1966 en hélt þá til Bretlands þar sem hann lagði stund á höggmyndalist við ýmsar stofnanir til ársins 1972. Eftir það fór hann í nokkrar námsferðir, meðal annars til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hallsteinn hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum í gegnum tíðina, auk þess sem hann hefur tekið þátt í fjölda samkeppna, gert verðlaunagripi fyrir ýmis tilefni og unnið minnismerki fyrir samtök og sveitarfélög. Þá má finna verk hans víða á söfnum, í einkaeign og í almannarými, svo sem í Hallsteinsgarði í Gufunesi, þar sem Hallsteinn kom fyrir sextán útilistaverkum úr áli á árunum 1989-2012.