Dýrkun

Ásmundur Sveinsson

1958

Bronsafsteypa
Hb-936

1. júní 1958 voru fimmtíu ár liðin frá því að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi. Var því fagnað með tveggja daga hátíðarhöldum, þar sem Reykjavík færði Hafnarfirði höggmynd Ásmunds Sveinssonar að gjöf í tilefni afmælisins. Verkið einkennist af blíðu og friðsæld og fær samband móður og barns á sig táknrænan, hugnæman blæ. Móðirin horfir með ást og aðdáun á barn sitt og er verkinu ætlað að endurspegla virðingu fyrir hinu unga lífi, jafnframt því sem það dregur upp mynd af æskunni sem mun erfa landið. Þá var þessari fallegu gjöf valinn staður við hjúkrunarheimilið Sólvang, sem var einmitt fæðingarheimili Hafnarfjarðar á þeim tíma.

Ásmundur Sveinsson var fæddur 20. maí 1893 á Kolsstöðum í Miðdölum. Ásmundur lærði tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni til að byrja með en 1919 hélt hann til frekara náms til Kaupmannahafnar og þaðan til Svíþjóðar, þar sem hann nam höggmyndalist í sex ár við Listaakademíuna í Stokkhólmi. Eftir útskrift þaðan flutti hann svo til Parísar, þar sem hann dvaldi um þriggja ára skeið, auk þess að ferðast um Grikkland og Ítalíu, áður en hann fluttist aftur heim til Íslands 1929. Ásmundur var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar og hafði mikil áhrif á aðra myndhöggvara með starfi sínu, auk þess sem hann tók marga listamenn í læri á löngum ferli sínum, þar á meðal nokkra þeirra sem eiga útilistaverk í Hafnarfirði.