Bjarni Sívertsen riddari

Ríkarður Jónsson

1950

Bronsafsteypa, hraungrýti
Hb-942

Bjarni Sívertsen (1763-1833), nefndur Bjarni riddari eftir að hafa hlotið aðalstign frá Danakonungi, var brautryðjandi í innlendri verslun, útgerð og skipasmíð á Íslandi. Bjarni stundaði verslunarrekstur í Hafnarfirði árin 1794-1831 og reisti þar glæsilegt íbúðarhús, Sívertsens-húsið, á árunum 1803-1805, en það er nú hluti af Byggðasafni Hafnarfjarðar. Það var á 25 ára afmæli Málfundafélagsins Magna, stofnanda Hellisgerðis, 2. desember 1945, að forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar afhenti Magna peningagjöf að þávirði tuttugu þúsund króna, sem skyldi varið til að reisa brjóstmynd af Bjarna í Hellisgerði, þar sem hún stendur nú á efsta punkti garðsins. Verkið var fyrsti minnisvarðinn sem settur var upp í Hafnarfirði en stallurinn undir myndinni er hlaðinn úr fjörusteinum úr Selvogi, þaðan sem Bjarni var ættaður. Verkið var afhjúpað í Hellisgerði árið 1950 af Þórunni Bjarnadóttur, afkomanda Bjarna.

Ríkarður Jónsson fæddist í Tungu í Fáskrúðsfirði 20. september 1888. Nam hann tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni, tréskurðameistara, í Reykjavík og sótti jafnframt teiknikennslu hjá Þórarni B. Þorlákssyni, listmálara, um skeið. Þá varð Ríkarður fyrstur til þess að ljúka námi í myndskurðarlist hér á landi. Sveinsstykki hans var spegilumgjörð úr mahóní og bar útskurðurinn keim af nýbarokkstíl 19. aldar. Spegillinn er meðal þekktustu verka Ríkarðs Jónssonar og er nú eign Þjóðminjasafns Íslands. Árin 1911-14 stundaði Ríkarður síðan nám við höggmyndadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn. Ríkarður Jónsson var einna þekktastur fyrir brjóstmyndir sínar og lágmyndir af samtíðarmönnum, sem og útskurðarmuni ýmiss konar, en tvo aðra minnisvarða má finna í Hafnarfirði eftir listamanninn.