Árur

Steinunn Þórarinsdóttir

1989

Cortenstál
Hb-1366

Verk Steinunnar Þórarinsdóttur sýnir tvær verur á bylgjulaga plötu úr stáli. Önnur veran teygir sig upp frá efri jaðri plötunnar og virðist hafa verið skorin út úr stálplötunni. Þá má sjá aðra veru í því negatífa rými sem eftir varð en verurnar eru báðar með útréttar hendur. Önnur þeirra teygir sig á eftir hinni en hin réttir hönd sína til himins. Bendir titill verksins til þess að hér sé annars vegar um að ræða mannveru og áru hennar en spurningin er hins vegar hvort er hvað, andi og efni. Ýmist mætti ætla að veran í hinu neikvæða rými sé ára manneskjunnar sem teygir sig upp úr verkinu, áþreifanleg, í sínu fasta formi. Á hinn veginn mætti ímynda sér að áran sé sú vera sem teygir sig til himins, hið raunverulega sjálf, sem dvelur um stund í líkamanum, musteri mannsandans, en yfirgefur hann við ævilok, skilur hann eftir tóman og heldur á vit nýrra ævintýra. Verkið var upprunalega hluti af einkasýningu listakonunnar sem haldin var á Kjarvalstöðum árið 1990 en Steinunn gaf Hafnarfirði verkið í tilefni af Listahátíð sem haldin var árið 1991. Verkið varð þó fyrir tjóni og var endurgert stuttu síðar.

Steinunn Þórarinsdóttir, myndhöggvari, er fædd 20. apríl 1955. Steinunn lauk BA-prófi í myndlist frá Háskólanum í Portsmouth í Bretlandi 1979 og stundaði síðan framhaldsnám í Listaakademíunni í Bologna á Ítalíu 1979-80. Hún hefur verið starfandi myndlistarmaður æ síðan og hefur hún unnið fjölda verka fyrir almannarými, bæði hér á landi og utan landsteinanna, svo það hefur verið stór þáttur í hennar listrænu starfsemi alla tíð. Þá sameinar hún gjarnan klassíska höggmyndagerð og áleitnar spurningar líðandi stundar í fígúratífum verkum sínum. Þungamiðjan í verkum hennar er manneskjan og barátta hennar við lífið og tilveruna, auk þess sem samtal mannsins við náttúruna, umhverfi sitt og samfélagið er leiðarstef í list hennar. Steinunn hefur fengið ýmis verðlaun og viðurkenningar, m.a. sæmdi forseti Íslands hana riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir störf í þágu myndlistar hérlendis og erlendis.