Án titils

Sverrir Ólafsson

1990

Stál
Hb-957

Eitt tveggja verka sem finna má í Hafnarfjarðarbæ eftir Sverri Ólafsson. Auk eigin verka lagði listamaðurinn þó margt fleira af mörkum til menningarmála í Hafnarfirði og má með sanni segja að hann hafi sett svip sinn á bæinn. Sverrir stofnaði til að mynda Listamiðstöðina Straum í Hafnarfirði árið 1988 og stýrði henni um árabil, auk þess sem hann var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Listahátíðar í Hafnarfirði, sem fór fram árin 1991 og 1993, sem og höggmyndagarðsins á Víðistaðatúni, sem var einmitt opnaður í tengslum við Listahátíð 1991. Þá ber þetta svipmikla, tvískipta verk vitni um kraft listamannsins og litríka nálgun hans við listina.

Sverrir Ólafsson fæddist á Bíldudal 13. maí 1948 en ólst upp í Stykkishólmi. Hann tók kennarapróf frá handavinnudeild Kennaraskóla Íslands árið 1969 og lauk námi frá myndhöggvaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1976. Hann stundaði einnig nám í málmtækni, m.a. við Iðntæknistofnun Íslands og sótti námskeið í glerlist í Cambridge á Englandi. Sverrir kenndi mynd- og handmennt við Víðistaðaskóla og Lækjarskóla í Hafnarfirði á árunum 1969-73 og kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-85. Sverrir var áhrifamaður og brautryðjandi á sínu sviði og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, m.a. í Mexíkó þar sem hann starfaði lengi að list sinni.