Án titils

Sólveg Baldursdóttir

2002

Blágrýti

Við Bókasafn Hafnarfjarðar standa sexstrendar blágrýtissúlur, fimm að tölu, allar með einum slípuðum fleti, sem á eru höggnar útlínuteikningar af fígúrum og formum. Vísa þessar myndir, sem virðast ristar í steininn, til hinnar eilífu leitar mannsins að uppruna sínum. Þá vekja hin esóterísku eða dulspekilegu tákn spurningar hjá áhorfandanum um samband mannsins við andann, hins efnislega og hins óefnislega, sem endurspeglast jafnvel í efnisleika súlanna, í samspili hrárra hliða þeirra og hinum slétta, slípaða fleti. Minna táknin einnig á myndletur fornþjóða eða hellamálverk, óræð og sveipuð dulúð, líkt og vísbending um hið óþekkta að handan, í senn þekkjanleg sem ummerki eftir manninn en jafnframt ofar okkar skilningi.

Sólveig Baldursdóttir er fædd 8. febrúar 1961. Hún stundaði nám í höggmyndalist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1980-82 og hélt síðar í nám til Danmerkur við Listaakademíuna í Óðinsvéum, auk þess sem hún starfaði og stundaði nám á Ítalíu, annars vegar í Toskaníu árið 1985 og svo í Carrara árið 1987. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Þá hélt hún sýningu, sem bar yfirskriftina Náttúra, á verkum sínum í Hafnarborg árið 2000. Sólveig vinnur verk sín gjarnan í ítalskan marmara sem og íslenskt blágrýti.