Votaberg

Gestur Þorgrímsson

1987-88

Blágrýti, stál

Þetta ljóðræna verk Gests Þorgrímssonar stendur við Hamarkotslæk í Hafnarfirði, fyrir framan Gamla Lækjarskóla, en um verkið streymir vatn úr lítilli skál á toppi þess og tengir það með þeim hætti við Lækinn. Steinninn höfðaði að eigin sögn sérstaklega til Gests sem efniviður framar öðrum miðlum vegna þess hve leyndardómsfullur hann er og að mörgu leyti óræður. Þótti honum hann sérlega heppilegur til gerðar útilistaverka, þar sem hann tekur á sig ólíkar myndir eftir veðri og vindum, líkt og verk þetta er gott dæmi um. Verkið tekur þannig miklum breytingum eftir árstíðum. Á veturna klæðist það til að mynda iðulega glæsilegri klakabrynju sem gefur verkinu tignarlegt útlit og skemmtilega sérstöðu, enda þótt þetta valdi nokkrum erfiðleikum með tilliti til varðveislu verksins, þar sem flísarnar á stöpli verksins eiga það til að springa af völdum frostsins.

Gestur Þorgrímsson, myndhöggvari, fæddist í Laugarnesi við Reykjavík 27. júní 1920. Gestur stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann 1944-46 og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1946-47. Á sjötta áratugnum var hann landsþekktur skemmtikraftur og gerði einnig allmarga útvarpsþætti á þeim tíma. Þegar Kennaraháskólinn var stofnaður starfaði hann þar nær óslitið til ársins 1984. Gestur starfaði alla tíð að myndlist samhliða öðrum störfum. Eftir að hann hætti kennslu sneri hann sér einvörðungu að listinni og sinnti mest höggmyndagerð. Auk útilistaverka Gests í bænum varðveitir Hafnarborg fimm önnur verk eftir listamanninn.