Vindspil

Einar Már Guðvarðarson

2000

Járn, stál
Hb-1358

Verkið varð til í tilefni Vindhátíðar í Reykjavík, sem var haldin árið 2000, en hátíðin var óður til vindsins, þar sem allar hinar jákvæðu hliðar hans voru dregnar fram. Fjallað var um vindinn frá ólíkum sjónarhornum og áhrif hans á landslag, list og klæðnað skoðuð. Meðal þess sem var til sýnis á Vindhátíðinni voru vindhörpur, vindspil og vindföt alls konar. Einar Már Guðvarðarson var annar tveggja fulltrúa Hafnarfjarðar á hátíðinni en verki hans var komið fyrir uppi á þaki Faxaskála yfir hátíðarhöldin, þar sem Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, átti eftir að rísa síðar. Verkið stendur nú á malarkambi við enda Langeyrarmala, skammt frá bænum Ljósaklifi, þar sem listamaðurinn bjó. Þar horfir verkið út yfir hafið en í vindi hreyfist það, svo frá því má heyra ljúfa bjölluhljóma.

Einar Már Guðvarðarson fæddist 9. febrúar 1954 í Reykjavík. Einar lauk prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1979 og stundaði síðar kvikmyndanám í Kaupmannahöfn og New York, auk þess sem hann nam steinhögg í Grikklandi á árunum 1985-90. Einar var grunnskólakennari um árabil, vann við kvikmyndagerð og stundaði ritstörf áður en hann sneri sér alfarið að höggmyndalist árið 1990. Þá kenndi hann um skeið við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Einar hélt sína fyrstu einkasýningu 1984 og eftir það hélt hann fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum víða um heim. Einar bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi í Hafnarfirði en síðustu árin var hann búsettur meginhluta ársins í Kyoto í Japan, þar sem hann vann að eflingu menningartengsla Íslands, Norðurlandanna og Japans.