Brons
Hb-943
Í tilefni af fjörutíu ára afmæli Hellisgerðis var í október 1963 afhjúpaður minnisvarði af Guðmundi Einarssyni (1883-1968), trésmíðameistara og framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs, en hann átti frumkvæðið að stofnun garðsins, ræktun hans og vernd. Þá hélt Guðmundur framsögu á fundi í Málfundafélagi Magna 15. mars 1922, þar sem hann benti á hvílík áhrif það gæti haft til bóta fyrir bæinn ef félagið kæmi upp blóma- og skemmtigarði þar sem sérkenni landsins, hraunborgirnar og gjárnar, fengju að halda sér og njóta sín óspillt, jafnframt því að hlúa að gróðrinum. Fullyrti Guðmundur að slíkur garður myndi vera félaginu til sóma og bænum til prýði. Árið eftir hófust fyrstu framkvæmdir í garðinum en myndin af Guðmundi er felld inn í hraunvegg, rétt við hellinn í gerðinu.
Ríkarður Jónsson fæddist í Tungu í Fáskrúðsfirði 20. september 1888. Nam hann tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni, tréskurðameistara, í Reykjavík og sótti jafnframt teiknikennslu hjá Þórarni B. Þorlákssyni, listmálara, um skeið. Þá varð Ríkarður fyrstur til þess að ljúka námi í myndskurðarlist hér á landi. Sveinsstykki hans var spegilumgjörð úr mahóní og bar útskurðurinn keim af nýbarokkstíl 19. aldar. Spegillinn er meðal þekktustu verka Ríkarðs Jónssonar og er nú eign Þjóðminjasafns Íslands. Árin 1911-14 stundaði Ríkarður síðan nám við höggmyndadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn. Ríkarður Jónsson var einna þekktastur fyrir brjóstmyndir sínar og lágmyndir af samtíðarmönnum, sem og útskurðarmuni ýmiss konar, en tvo aðra minnisvarða má finna í Hafnarfirði eftir listamanninn.