Fiskar

Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna)
Gestur Þorgrímsson

1988

Rafbrynjað stál
Hb-941

Verkið, sem er eftir hjónin Sigrúnu Guðjónsdóttur (Rúnu) og Gest Þorgrímsson, var sérstaklega hannað fyrir hið nýja hús Fiskmarkaðarinns í tilefni af áttatíu ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar. Verkefnið var óvenjulegt að því leyti að listamennirnir voru fengnir til verksins af hafnarstjórn áður en búið var að ljúka við teikningar að húsinu og voru þau hjónin því með í hönnunarferlinu frá upphafi. Þá er listaverkið unnið úr áli sem er sérstaklega hert og litað með rafbrynjun en við vinnslu verksins þurfti Rafveitan að leggja sérstakan kapal í Fiskmarkaðshúsið svo nægur straumur fengist fyrir rafbrynjun þess. Þess má jafnframt geta að á þeim tíma var þetta glæný vinnsluaðferð fyrir slíkt útilistaverk, enda þótt þessi aðferð væri byrjuð að ryðja sér til rúms við vinnslu á klæðningum fyrir byggingar og fleira. Það var Óskar Vigfússon, formaður Sjómannafélags Hafnarfjarðar og forseti Sjómannasambands Íslands, sem vígði listaverkið á framhlið Fiskmarkaðarins við Suðurhöfnina í Hafnarfirði árið 1988 en Fiskmarkaðurinn tók formlega til starfa tæpu ári áður.

Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna) er fædd 15. nóvember 1926. Rúna lagði stund á myndlistarnám við Handíða- og myndlistaskólann 1946-47 og síðar við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1946-47. Þá hefur hún verið virk í íslensku listalífi frá því um miðja síðustu öld og er hún frumkvöðull í íslenskri leirlist. Eftir hana liggur fjöldi listaverka, bóka, bókaskreytinga, sem og ýmis hönnun, en verk hennar er að finna í ýmsum söfnum og í opinberu rými. Hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum jafnt hérlendis og erlendis. Rúna starfaði einnig sem kennari við Myndlista- og handíðaskólann á árunum 1960-67. Í safneign Hafnarborgar má finna níu verk eftir listakonuna, bæði málverk og lágmyndir úr leir.

Gestur Þorgrímsson, myndhöggvari, fæddist í Laugarnesi við Reykjavík 27. júní 1920. Gestur stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann 1944-46 og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1946-47. Á sjötta áratugnum var hann landsþekktur skemmtikraftur og gerði einnig allmarga útvarpsþætti á þeim tíma. Þegar Kennaraháskólinn var stofnaður starfaði hann þar nær óslitið til ársins 1984. Gestur starfaði alla tíð að myndlist samhliða öðrum störfum. Eftir að hann hætti kennslu sneri hann sér einvörðungu að listinni og sinnti mest höggmyndagerð. Auk útilistaverka Gests í bænum varðveitir Hafnarborg fimm önnur verk eftir listamanninn.